laugardagur, 10. maí 2008

Ermarsund 2008. Benedikt Hjartarson ásamt fyrsta Landsliði í Sjósundi

Fyrir dyrum er leiðangur Íslendinga með það að markmiði að „sigra Ermarsundið“ sem er metnaðarfull tilraun til að vinna íþróttaafrek sem Íslendingar hafa ekki unnið til þessa. Sund yfir Ermarsundið er erfitt og áhættusamt. Gríðarlegar æfingar og mikil undirbúningsvinna liggur að baki leiðangrinum þar sem fyrrv. landsliðsþjálfari í sundi og fleiri þjálfarar og skipuleggjendur leggja hönd á plóg.
Sjósundsmennirnir eru opinbert landslið Íslands í sjósundi (Icelandic Open Water Team) og samanstendur af reyndum sjósundmönnum, fyrrv. landsliðsmönnum í sundi og einum pólfara.


Efri röð frá vinstri: Björn Ásgeir Guðmundsson (boðsundsveit), Kristinn Magnússon (boðsundsveit), Hálfdán Freyr Örnólfsson (boðsundsveit), Heimir Örn Sveinsson (boðsundsveit), Fylkir Þorgeir Kjeld Sævarsson (boðsundsveit), Ingþór Bjarnasson (farastjóri) og Stefán Karl Sævarsson (Aðstoðarm og varamaður í boðsundsveit)
Neðri röð frá vinstri: Sigrún Matthíasdóttir (varamaður í boðsundsveit),Hrafnkell Marinósson (boðsundssveit), Birna Jóhanna Ólafsdóttir (boðsundsveit), Hilmar Hreinsson (boðsundsveit),Benedikt Hjartarson (einstaklingsund -> Ermasund 2008)

Undirbúningur leiðangursins hófst síðastliðið sumar, þegar ljóst var að Benedikt Hjartarsyni hefði ekki tekist að synda yfir Ermasundið, þrátt fyrir hetjulegar tilraunir. Grunnhugmyndin er sú að Benedikt Hjartarson hefur fyrsta sundrétt – þ.e. er tryggður réttur til þess að gera tilraun að því að synda Ermarsundið. Í kjölfarið kemur boðsundsveit Íslendinga og syndir yfir til Frakklands og aftur til Englands. Hópurinn vinnur saman sem ein heild með það að markmiði að bæði Benedikt og boðssundssveitin nái takmarkinu. Nú þegar hefur verið keyptur sundréttur og tryggt besta fáanlega aðstoðarfólk í Bretlandi, fylgdarbátur, æfingaraðstaða o.s.frv. Með þessu móti aukast líkurnar á því að árangur náist. Benedikt hefur með þrautseigju sinni og elju sannarlega unnið sér réttinn til að reyna fyrstur yfir Ermarsundið og boðssundssveitin styður fyllilega við bakið á honum.

Nokkur fróðleikskorn um meðlimi Sjósundlandsliðsins:

  • Tveir úr hópnum, Fylkir Þorgeir Kjeld Sævarsson og Kristinn Magnússon eru þeir einu í heiminum sem hafa synt yfir Þingvallavatn
  • Kristinn hefur einnig synt tvisvar sinnum Drangeyjarsund, og eini núlifandi Íslendingur sem hefur synt frá Vestmannaeyjum og í land.
  • Benedikt Hjartarson er annar Íslendinga til að synda um 15 km leið frá Nauthólsvík og inn í Hafnarfjörð. Það tók hann um 6 klst að synda leiðina.
  • Farastjóri hópsins, sálfræðingurinn Ingþór Bjarnarson er mikil skíðagöngugarpur og hefur farið yfir Grænlandsjökul, á Suðurskautið og hálfa leiðina á Norðurskautið í frægri ferð.
    Í 8 manna boðsundsveitinni eru allir í Sundfélagi Hafnarfjarðar nema Björn Ásgeir en hann er frá sundfélaginu Ægi.
  • Haustið 2006 tóku Heimir, Benedikt, Birna, Hilmar og Hrafnkell þátt í auglýsingu og syntu í Jökulsáarlóninu. Þar slóu þau heimsmet með því fara 14 sinnum út í 0,9 gráður heita jökulónið, mest 6 mín í einu.
  • Björn Ásgeir er hefur mestu reynslu í sjósundinu og ber t.d. ábyrgð á því að Kristinn hóf sinn sjósundferil
  • Annar reynslubolti, Birna Jóhanna Ólafsdóttir er eina konan í boðsundsveitinni. Hún hefur synnt ótal sjósund og er tvímælalaust sjósundrottning Íslands í dag.
  • Hálfdán er sá eini sem hefur synt frá eyjunni Skrúð og í land.
  • Stefán,Sigrún,Kristinn, Hálfdán og Heimir eiga sameiginlegt að hafa æft keppnissund á sínum yngri árum.

Það eru góðar líkur á að þessi úrvalshópur ásamt Benedikt Hjartarson takist ætlunarverk sitt og standi sigurreifir á Frakklands og Englandsströndum.

Á fimmtudaginn kom hópurinn í fyrsta skiptið saman í Nauthólsvíkinni. Veðrið lék við hópinn þegar hann mátaði galla,fór í myndatöku og nokkrir úr liðinu skelltu sér í sjóinn Sjá hér

Engin ummæli: