sunnudagur, 16. ágúst 2009

Skarfakletts-Viðeyjarhópsund


Þann 28. ágúst 2007 var slegið met í Skarfakletts-Viðeyjarsundi þegar 55 manns syntu sjóhópsund frá Skarfakletti og út í Viðey.

Nú er kominn tími á að bæta það met og Föstudaginn 21. ágúst kl. 17:00 (degi fyrir menningarnótt) munu Ermarsundgarpar í samvinnu við ÍTR, Sjósundnefnd Sundsamband Íslands og aðra velunnara standa fyrir ef veður leyfir hópsjósundi þessa sömu leið. Skarfakletts-Viðeyjarsund er um 910m og 1820m báðar leiðir.

Sundfólk er á eigin ábyrgð en 4-5 björgunarbátar vera á staðnum og gæta fyllsta öryggis sundmanna. Einnig munu reyndir sjósundgarpar synda með hópnum og sjá til þess að allt gangi vel fyrir sig.

Hægt verður að skrá sig með því að senda tölvupóst á hopsjosund@gmail.com eða skrá sig á skráningarblað í afgreiðslu Ylstrandarinnar í Nauthólsvík. Það sem þarf að tilgreina í tölvupóstinum er Nafn, kennitala, netfang, aldur og hvort farið verður báðar leiðir.

Skráningjald er 500 kr og þarf að greiða það á staðnum fyrir sund (reiðufé). Innifalið í skráningargjöldum eru starfsmenn ÍTR og bátafylgd, heitir drykkir og pulsur eftir sund. Vinsamlega mætið tímalega svo skráning gangi hratt og vel fyrir sig en lokað verður fyrir skráningu 15 mín fyrir sund. Þátttakendur eru hins vegar hvattir til að skrá sig fyrirfram.

Farið verður af stað frá Skarfakletti sem er staðsettur við Skarfagarða, við bílastæði þar sem Viðeyjarferjan fer til Viðeyjar.

Eftir sundið færum við okkur niður í Nauthólsvík og hitum okkur upp í heita pottinum. Kl 19:00 hefst síðan grill þar sem fólk getur pulsað sig niður og á meðan verður sjósundsumarið gert upp á viðeigandi hátt. Að lokum fá allir þátttakendur viðurkenningarskjal, sundinu til staðfestingar.

Nokkur góð ráð fyrir sundið:
• Þar sem enginn heitur pottur er við Skarfaklett þá mælumst við með því að fólk þurki sér og fari sem fyrst í hlý og þurr föt og þiggji síðan heitt kakó og með því á eftir
• Gott er að borða og drekka vel (t.d. kolvetnisorkudrykki) 2 til 3 tímum fyrir sund. Kemur í veg fyrir kólnun.
• Þátttakendur eru hvattir til að synda alltaf minnst tveir saman (það verða nógu margir þátttakendur til að synda með). Ennfremur ættu sundmenn að tala reglulega saman á leiðinni.

Mælum eindregið með því að fólk kynnir sér ráðleggingar um sjósund og einkenni ofkólnunar á www.landlæknir.is

Höfum gaman saman og mætum í Skarfakletts-Viðeyjarsund.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vakin er athygli á að þetta er daginn fyrir Menningarnótt en það jafnframt keppnisdagur Reykjavíkurmarathons. Þar sem sjósundsgarpar eru fjölhæfir íþróttamenn og margir jafnframt að æfa hlaup er þessi tímasetning ekki til þess fallin að skapa hámarksþátttöku. Væntanlega hafa það verið hafnaryfirvöld sem réðu þessu. Þorleifur.

Unknown sagði...

Já, það voru hafnaryfirvöld sem réðu þessu. Mikið upp skemmtiferðarskip og þetta var eini tími sem kom til greina. Ég held að það sé bara hressandi, eykur blóðflæðið fyrir hlaupið að skella sér amk hálfa leið :)