sunnudagur, 17. ágúst 2008

Bakarinn syndir Drangeyjarsund ósmurður

Á laugardaginn, skellti Benni sér norður og tók Drangeyjarsund eftir næturvakt í bakaríinu. Hann kom í land að Reykjum á Reykjarströnd rétt fyrir kl 20:00. Hann skellti sér í pottinn með fylgdarliði sínu en rauk síðan suður til að fara vinna kl 04:00 aðfaranót sunnudagsins. Eins og sést á myndum voru aðstæður fínar.

Benni var þar með 7. maðurinn til að klára Drangeyjarsundið en þriðji til að klára það ósmurður. Áður höfðu Kristinn Magnússon og Eyjólfur heitinn synt ósmurði. Benedikt fór leiðina á 2 klst 36 mín og 10 sek í 10° heitum sjónum. Það er næst besti tíminn frá upphafi en Kristinn sem synti þetta seinast 2002, fór þá á 2 klst og 10 mín.
Fylgdarmenn Benedikts voru Ísleifur Friðriksson frá ÍTR en hann stjórnaði fylgdarbátnum, Ásgeir Elíasson og Þorgeir Sigurðsson sem komu með Benedikt frá Reykjavík og Heiða Jóhannsdóttir frá Sauðárkróki. Ásgeir, Þorgeir og Heiða syntu öll með Benedikt einhvern hluta úr leiðinni en þeir hittu Heiðu í Grettislaug áður en þeir lögðu af stað í Drangey og buðu henni að koma með.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sælir veriði, Heimir og Benni H. Móðir mín var á Króknum í vikunni og sundlaugarvörðurinn þar tjáði henni að loks hefði Benna tekist að synda Drangeyjarsundið, það hefði verið í fréttum!

Kveðja, SJÓnas

Nafnlaus sagði...

Ég held að það sé ekki rétt! Hann reyndi við sundið 2 sólahringum á eftir okkur eða á mánudagskvöldi og hann komst 1 mílu og fékk þá þursabit!!! Veit ekki til þess að hann hafi reynt aftur.

Kv. Heiða

Nafnlaus sagði...

Ég veit jú að hann komst ekki; ég er að benda á misskilninginn: nú halda Skagfirðingar og kannski fleiri að Benni Kemstekki hafi komist, fyrst þeir hafa jú frétt að Benni bakari (eða sem við gætum, til aðgreiningar, kallað Benni Kemst) hafi komist.


Kv. SJÓnas

Nafnlaus sagði...

Fólk ruglar altso Bennunum saman.

Nafnlaus sagði...

Já það er reyndar rétt!! Ég þarf alltaf að verað segja við fólk að ég hafi farið með Benna Ermasundskappa en ekki hinum, held að fólk fatti ekki að þeir séu 2.

Heiða

Nafnlaus sagði...

Tími Kristins 2 klst 10 mínútur er ekki sambærilegur þar sem Kristinn náði þeim tíma í blautbúningi.

/þorgeir