mánudagur, 28. september 2009

Nautholsvik.is og allir að kaupa kaffikort !

Starfsmenn Nauthólsvíkar halda úti flottri heimasíðu, nautholsvik.is. Þar eru helstu fréttir og fl.

Þar sem aukning í sjósundi hefur verið gríðarlega og margir fastagestir í Nauthólsvík í hverri opnun munum við bjóða uppá tvær nýjungar veturinn 2009 - 2010. Hægt er að kaupa kaffikort á 1000 kr. sem inniheldur 15 kaffibolla og fría áfyllingu. Jafnframt bjóðum við gestum uppá að kaupa kort á 2000 kr. sem veitir ótakmarkaðan aðgang að munageymslu í afgreiðslu Ylstrandar til loka árs 2009.  Mælum eindregið með því að fólk kaup sér kort til að tryggja opnunartímann enn frekar í sessi.

fimmtudagur, 10. september 2009

Myndir úr Skarfakletts-Viðeyjarsund

Myndir úr fjölmennasta hópsjósundi íslandsögunar þann 21. ágúst á vef Jóns Svavarssonar. http://motivmedia.123.is/album/Default.aspx?aid=158635

Viðeyjarsund lögreglumanna og fréttir af Emarsundinu á ermarsund.com

Seinustu helgi syntu þrír lögreglumenn formlegt Viðeyjarsund þ.a.s. frá Viðeyjarbryggu og inn í RVK höfn.  Þeir voru sirka 2 klst og 16 mín í köldum sjónum og voru því orðnir talsvert kaldir í lokinn en einn þurfti að fara með sjúkrabíl.  Fjórir lögðu á stað en þrír kláruðu.  Þeir þrí sem kláruðu heita Jón Kristinn Þórsson, Arnþór Davíðsson og Sigfús Benóný Harðarson.

Sjósundgarpar úr Sundfélag Hafnarfjarðar bíða nú eftir góðu veðri til að heyja baráttuna við Ermarsundið.  Fréttir af því eru á http://www.ermarsund.com/

miðvikudagur, 2. september 2009

Vetraropnun Ylstrandarinnar

Mánudaginn 31. ágúst var síðasti dagur sumaropnunar og hefst vetraropnun miðvikudaginn 2. september. Opið verður á mánudögum kl. 17 - 19, miðvikudögum kl. 11 - 13 og kl. 17 - 19 og á föstudögum kl. 11 - 13. Áfram er frítt í búningsaðstöðu, sturtur og heitan pott.


Sjáumst hress í vetur, starfsfólk Nauthólsvík

þriðjudagur, 1. september 2009

mánudagur, 24. ágúst 2009

Ný síða hjá Ylströndinni

Ylströndin og siglingaklúbburinn Siglunes hafa opnað heimasíðu og er vefslóðin http://www.nautholsvik.is/ þar eru ýmsar gagnlegar upplýsingar frá báðum starfsstöðum. Á heimasíðunni má finna myndir úr starfi okkar, helstu fréttir, upplýsingar um opnunartíma o.fl. Þar á meðal eru myndir frá Skarfakletts-Viðeyjarsundinu 21.ágúst. Stefnt er það því að koma upp veðurupplýsingum sem segja til um hitastig sjávar og lofthita í Nauthólsvík. Jafnframt munu flóðatölur verða birtar með þeim hætti að vikulega uppfærist skrá fyrir næst sjö daga.

sunnudagur, 23. ágúst 2009

Ermarsund.com !

Sjá meira á http://www.ermarsund.com/

föstudagur, 21. ágúst 2009

Fjölmennasta hópsjósund Íslandsögunar !

Í dag 21.08.2009 kl 17:20 lögðu 164 sjósundgarpar (af 180 skráðum) á stað frá Skarfakletti og syntu 910m leið út í Viðey en 47 sneru við og syntu til baka í 11° heitum sjónum. Þetta var fjölmennasta hópsjósund Íslandsögunar !

Fyrra metið var sett í Lyfjuhópsundi þann 10.08.2009. Einnig var fjöldametið þrefaldað í Skarfakletts-Viðeyjarsundi en þann 28. ágúst 2007 syntu 55 manns þetta sama sund. Ermarsundgarpar í samvinnu við ÍTR , Sjósundnefnd SSI og aðrar velunnar héldu utan um hópsjósundi og tókst skipulagning mjög vel og er hópsjósund sem þessi kominn til að vera.

Um morguninn var stíf norðan átt,8-10 m/s og ekki leit vel út fyrir hópsjósund. Veðrið batnaði eftir því sem leið á daginn og þegar lagt var á stað var 2 -3 m/s, heiðskýrt og um 12° hiti. Það var stórstreymt og þegar hópurinn var kominn út fyrir varnargarð synti hann inn í aðfallstraum sem bar hópinn til austurs. Fylgdarbátar brugðist við því og fylgdu fólkinu örugglega að Viðeyjarbryggju.

Heimir Örn, aðalskipuleggjari sundsins, fór yfir öryggismálin og fleira í byrjun sundsins og stjórnaði því síðan með dyggri aðstoð frá ITR og öðrum Ermarsundgörpum. ITR Siglingaklúbburinn Siglunes var með fjóra fylgdarbáta til að tryggja öryggi sundsins en 5 manns þáðu aðstoð þeirra og á leiðinni og létu draga sig upp úr. Einnig komu 5 tindar menn með einn auka bát og hjálpuðu til. Bæði óvanir og vanir sjósundgarpar syntu en Ermarsundgarpar ásamt öðrum vonum görpum syntu með og höfðu auga með hópnum.

Yngstu sjósundgarparnir voru 15 ára en sá elsti var 73 ára, Haukur Bergsteinsson. Þrátt fyrir aðfallsstraum kláraði hann sundið með miklum sóma og stóð sigurreifur á viðeyjarbryggjunni. Líklega er hann lang elsti sjósundmaðurinn til að synda út í Viðey.

Tilefnið sundsins var að fagna gríðarlegri aukningu ástundun sjósunds, sjósundafrekum sumarsins, 5 Eyjasund, Hríseyjar,Viðeyjar og Drangeyjarsundum og síðan ekki síst að kveðja Ermarsundgarpana sem senn leggja á stað í Ermarsundið.

Ermarsundgarparnir eru hópur reyndra sjósundmanna og kvenna, 6 manna boðsundsveit sem ætlar sér að synda Ermarsund, báðar leiðir eða um 90 km sund. Sjá meira á Ermarsund.com

Eftir sundið þáðu garparnir Kakó og með því. Því næst var farið í heitu pottana í Nauthólsvíkinni. Þar var hópsjósundi gert upp á meðan garparnir fengu sér grillaðar pulsur og þáðu viðurkenningarskjöl. Þeir sem komust ekki niðri Nauthólsvík geta nálgast viðurkenningarskjölin í afgreiðslu Ylstrandarinnar.

Hópsjósundið gekk áfallalaust fyrir sig og því má þakka góðri samvinnu við þá Árna,Óttar og Ísleif hjá ITR Siglunesi. Skipuleggendur vilja þakka sjósundgörpunum fyrir framúrskarandi þáttökuna,starfsmönnum Heklu fyrir aðstoðu í sendbílnum,Securitas,Lyfju og síðast ekki síst ÍTR Siglunesi og 5 tinda mönnum fyrir frábæra bátafylgd.

Von er á myndum og takið vel eftir mogganum á morgum (Laugardagur 22.08.2009).

Nýjustu fréttir af Skarfakletts-Viðeyjarsundi

Góð grein á mbl.is

Skarfaklettsviðeyjarsund í dag kl 17:00 !

Þrátt fyrir stífa og kalda norðanátt í morgun eru góðar líkur á vel heppnuðu hópsjósundi í dag. Samkvæmt veðurspá á að lægja í dag og það verður komið skaplegasta veður kl 17:00.

Vegna strauma og þeirri staðreynd að hitastig sjávar hefur lækkað talsvert seinustu daga þá er líklegt að við förum bara aðra leiðina í dag.

Mikilvægt að hafa eftirfarandi upplýsingar í huga:

  • Skráningargjald er 500 kr og borgast á staðnum með reiðufé. Vinsamlegast mætið snemma svo skráning gangi vel.
  • Þar sem enginn heitur pottur er við Skarfaklett þá mælumst við með því að fólk þurki sér og fari sem fyrst í hlý og þurr föt og þiggji síðan heitt kakó og með því á eftir. Einnig er mjög gott hafa inniskó. Þáttakendur bera ábyrgð á sínu sundi og útbúnaði.
  • Gott er að borða og drekka vel (t.d. kolvetnisorkudrykki) 2 til 3 tímum fyrir sund. Kemur í veg fyrir kólnun.
  • Þátttakendur eru hvattir til að synda alltaf minnst tveir saman (það verða nógu margir þátttakendur til að synda með). Ennfremur ættu sundmenn að tala reglulega saman á leiðinni.
  • Sjórinn verður um 11°. Í Nauthólsvíkinni hefur hann verið um 13°-15° Báðar leiðir í Viðeyjarsundi er 1820m. Miðað við margföldunaráhrif hitastigs þá jafnast það á við 5 ferðir frá Nauthólsvík og yfir Í Kópavog sem er sirka 2500m.
  • Það verða 6 bátar sem fylgja sundmönnunum.
  • Líklegt er að það verði farinn bara önnur leiðinn, þ.a.s út í Viðey. Bátar munu síðan ferja fólk til baka eins fljótt og hægt er.

Sjáumst og höfum gaman saman

þriðjudagur, 18. ágúst 2009

Umræða um reglur og myndir

Með aukinni iðkun sjósund hefur skapast talsverð umræða um almennar og sérhæfar sjósundreglur og fyrirkomulag langsunda á Íslandi samanber Drangeyjarsund.

Fyrir nokkrum árum voru búnar til leiðbeiningar um sjósundiðkun og þær má nálgast inn á vef Sundsambandsins -> Öryggi í sjósundiðkun. Þessar sömu reglur eru upp á vegg í þjónustuhúsi Nauthólsvíkinnar. Við mælum eindregið með því að fólk kynni sér þær og reyni eftir fremsta megni að fara eftir þeim.

Sjósundnefnd Sundsamband Íslands er nú að skoða hvernig hægt verði að setja reglur í helstu og frægustu sundum á Íslandi.

Alþingiskonan Sif Friðleifsdóttir er virk sjósundkona og er dugleg að taka myndir. Á heimasíðu hennar, http://www.siv.is/ eru oft myndir og meðal annars frá Hópsundi Lyfju þann 10. ágúst

Einnig eru myndir frá Jóni Svavars á motivmedia.123.is

Að lokum viljum við minna fólk á Skarfaklettsviðeyjarsundið á föstudaginn 21. ágúst kl 17:00 .

sunnudagur, 16. ágúst 2009

Meira af 5 Eyja sundinu

Birna Ólafsdóttir, Benedikt Hjartarson, Árni Þór Árnason, Helena Bæringsdóttir og Birgir Skúlason kláruðu sundið

Tólf manns hófu svokallað fimm-eyja-sund á Kollafirði í dag (laugardaginn 15.8.2009) og fimm luku sundinu um tíuleitið sama kvöld. Syntir voru sirka 11 km. Að sögn Benedikt Hjartarsonar Ermarsundskappa var sundið sjálft létt og þægilegt en það var erfitt að þurfa að fara í land í öllum eyjunum. Þar kólnaði fólkið niður. Dálítil afföll urðu á mannskapnum á leiðinni og vorum við fimm sem kláruðum,Birna Ólafsdóttir, Benedikt Hjartarson, Árni Þór Árnason, Helena Bæringsdóttir og Birgir Skúlason. Þetta var skemmtisund og hjálpartæki leifð. Birna og Benedikt kusu að synda þetta á sundfötunum einum með litla feiti á slitfjötum.

Synt var frá Gunnunesi yfir í Þerney og þaðan áfram í Lundey þar sem stoppað var smá stund. Því næst var synt í Viðey og þar snædd súpa og brauð og sundmennirnir hitaðir upp, að því búnu var synt tfir í Engey næst og var þar kappsund við að ljúka þeim legg áður en Saga Rose skemmtiferðaskip sem legið hafði í Sundahöfn færi þar um og að því búnu var synt yfir í fimmtu eyjuna, Akurey, en þá var aðeins farið að bregða birtu og er sundinu lauk í Örfyrisey þá var sólin að setjast.

Auk kólnun við landtöku er mishiti sjávar eitt af vandamálum við þetta sund en hann getur verið ansi kaldur þar sem strauma frá Faxaflóanum gætir en hitastig hefur sennilega getað farið niður í 6 til 8 gráður á celcius en mesti hiti sem mældist var klappir þar sem sólin naut sín til að hita upp eins og til dæmis við Akurey þar sem hitin fór í 16 gráður.

Hópsund þetta var í tengslum við hóp sem kennir sig við fimm tinda, en en þeir hafa klifið hæsta fjall í hverjum landshluta á einni og sömu helginni og nú skildi það vera fimm eyjar. Einnig voru reyndir sjósungarpar með þeim sem kláruðu flestir. Takmarkinu var náð og sundmennirnir ánægðir með árangurinn.

Skarfakletts-Viðeyjarhópsund


Þann 28. ágúst 2007 var slegið met í Skarfakletts-Viðeyjarsundi þegar 55 manns syntu sjóhópsund frá Skarfakletti og út í Viðey.

Nú er kominn tími á að bæta það met og Föstudaginn 21. ágúst kl. 17:00 (degi fyrir menningarnótt) munu Ermarsundgarpar í samvinnu við ÍTR, Sjósundnefnd Sundsamband Íslands og aðra velunnara standa fyrir ef veður leyfir hópsjósundi þessa sömu leið. Skarfakletts-Viðeyjarsund er um 910m og 1820m báðar leiðir.

Sundfólk er á eigin ábyrgð en 4-5 björgunarbátar vera á staðnum og gæta fyllsta öryggis sundmanna. Einnig munu reyndir sjósundgarpar synda með hópnum og sjá til þess að allt gangi vel fyrir sig.

Hægt verður að skrá sig með því að senda tölvupóst á hopsjosund@gmail.com eða skrá sig á skráningarblað í afgreiðslu Ylstrandarinnar í Nauthólsvík. Það sem þarf að tilgreina í tölvupóstinum er Nafn, kennitala, netfang, aldur og hvort farið verður báðar leiðir.

Skráningjald er 500 kr og þarf að greiða það á staðnum fyrir sund (reiðufé). Innifalið í skráningargjöldum eru starfsmenn ÍTR og bátafylgd, heitir drykkir og pulsur eftir sund. Vinsamlega mætið tímalega svo skráning gangi hratt og vel fyrir sig en lokað verður fyrir skráningu 15 mín fyrir sund. Þátttakendur eru hins vegar hvattir til að skrá sig fyrirfram.

Farið verður af stað frá Skarfakletti sem er staðsettur við Skarfagarða, við bílastæði þar sem Viðeyjarferjan fer til Viðeyjar.

Eftir sundið færum við okkur niður í Nauthólsvík og hitum okkur upp í heita pottinum. Kl 19:00 hefst síðan grill þar sem fólk getur pulsað sig niður og á meðan verður sjósundsumarið gert upp á viðeigandi hátt. Að lokum fá allir þátttakendur viðurkenningarskjal, sundinu til staðfestingar.

Nokkur góð ráð fyrir sundið:
• Þar sem enginn heitur pottur er við Skarfaklett þá mælumst við með því að fólk þurki sér og fari sem fyrst í hlý og þurr föt og þiggji síðan heitt kakó og með því á eftir
• Gott er að borða og drekka vel (t.d. kolvetnisorkudrykki) 2 til 3 tímum fyrir sund. Kemur í veg fyrir kólnun.
• Þátttakendur eru hvattir til að synda alltaf minnst tveir saman (það verða nógu margir þátttakendur til að synda með). Ennfremur ættu sundmenn að tala reglulega saman á leiðinni.

Mælum eindregið með því að fólk kynnir sér ráðleggingar um sjósund og einkenni ofkólnunar á www.landlæknir.is

Höfum gaman saman og mætum í Skarfakletts-Viðeyjarsund.

laugardagur, 15. ágúst 2009

5 tindar menn syntu 5 eyjar og Lafleur Drangey

Það var stór sjósunddagur í dag. 5 tinda menn syntu 5 eyjasundið og Benedikt S. Laflaur gerði sér lítið fyrir og kláraði Grettissund (Drangeyjarsund) en fyrir ári síðan hafði hann reynt nokkrum sinnum án árangurs. Með Laflaur var konan Sarah-Jane Emily Card og var hún þá fyrsta konan til að synda Grettissund. Ekki eru komnar fram upplýsingar um útbúnað,hitastig sjávar eða veðurfar á meðan sundinu stóð. Sjá meira á MBL.is

5 eyja sundið gekk vel í góðu aðstæðum. Synti voru alls 11 km (óstaðfest). Það kláruðu ekki allir en 5 manns lukum við sundið. Stoppað var í eyjunum á milli sunda og veitingar þáðar. Kemur væntanlega meira um þetta á 5tindar

föstudagur, 14. ágúst 2009

5 eyjasund hjá 5 tindar mönnum ásamt nokkrum reyndum sjósundgörpum


Næstkomandi laugardag 15 ágúst, verður sett af stað verkefni sem kallast “5eyjar”. Þeir sem standar fyrir verkefninu eru 5 tinda menn en þeir gerðu sér lítið fyrir og fóru 5 fimm tinda í fimm landshlutum á einni helgi árið 2006. Ásamt þeim munum reyndir og óreyndir sundmenn gera tilraun til að synda úr í allar fimm eyjarnar í Kollafirði. Engar reglur erum um útbúnað og má notast við froskalappir,neon-frean sokka,vettlingar og fl. Allir verða þó á venjulegum sundskýlum. Á leiðinni munu þáttakandur glíma við ýmis vandamál svo sem strauma, ölduhæð, hættu á örmögnun og ofkælingu.

Eins og sést á korti verður sundleiðin eftirfarandi:

Land – Þerney – Lundey – Viðey – Engey – Akurey – Land

5 tinda menn munu vekja athygli og óska eftir styrkjum til Sjónarhóls, samtökum barna með sérþarfir.

Sjá meira á http://5tindar.is/

miðvikudagur, 12. ágúst 2009

Skarfakletts-viðeyjarsund

Vegna skipaumferðar í Sundahöfn er ekki hægt hafa að hópsjósundið 19. ágúst kl 17:00 eins áður var búið að auglýsinga. Unnið er af því fá nýjan tíma sem hentar hafnaryfirvöldum.

þriðjudagur, 11. ágúst 2009

Íslandsmet í Lyfju hópsjósundi




Í gærkvöldi var sett Íslandsmet í hópsjósundi þegar 146 manns syntu frá Nauthólsvíkinni og yfir Kópavogs og flestir fóru til baka aftur en sundleiðin yfir er um 500 metra (eftir að uppfylling kom Kópavogsmegin þá styttist leiðin um 170m, sjá Google Earth). Lyfja í samstarfi við sjósundnefnd SSÍ og ÍTR héldu utan um sundið. Sundið hófst rétt eftir kl 18:00 eftir að Heimir Örn, aðalskipuleggjari sundsins, fór yfir öryggismálin og fleira. Siglingaklúbburinn Siglunes var með fjóra fylgdarbáta til að tryggja öryggi sundsins en 6 manns þáðu aðstoð þeirra og á leiðinni og létu draga sig upp úr. Einnig voru starfsmenn ÍTR búnir að koma fyrir prömmum á leiðinni svo fólk gæti farið upp á þá ef menn lentu í vandræðum. Elsti sundmaður til að synda sundið var Haukur Bersteinsson, 73 ára. Hann synti báðar leiðir í 14,3° heitum sjónum. Eftir sundið hituðu menn sér í pottinum og það er nokkuð víst að metið í heita pottinu var líka slegið.

Bæði óvanir og vanir sjósundgarpar syntu og þeir vönu hjálpuðu þeim sem voru að stíga sín fyrstu skref. Þar á meðal var hópur úr boðsundsliði sem ætlar að synda yfir Ermarsundið og til baka aftur. Ermarsundgarpinn Benedikt Hjartarson mætti ásamt góðum kjarna en þau hafa verið dugleg að fá fólk til að prófa sjósund. Síðast ekki síst syntu afreksjósungarparnir Þorgeir Sigurðsson og Þórdís Hrönn Pálsdóttir en þau unnu það frækilega afrek að synda Drangeyjarsund seinasta laugardag. Sýnt var frá sundinu í 10 fréttum RUV en þar lýsir Þórdís þrekraunum sínum í Drangeyjarsundinu á skemmtilegan hátt.

Hópsjósundið sprengdi af sér alla strengi og því miður kláruðust sundhetturnar og ekki fengu allir viðurkenningarskjöl. Von er á fleiri sundhettum sem verða staðsettar niðri Nauthólsvík og hægt verður að nálgast viðurkenningarskjölin í Lyfju Lágmúla eftir miðvikudaginn. Allar ábendingar um það sem mátti betur fara eru vel þegnar með því commenta á fréttina hér fyrir neðan.

Stefnt er af því að halda annað sjóhópsund frá Skarfakletti og til Viðeyjar þann 19. ágúst kl 17:15 ef veður leyfir. Hægt verður að skrá sig með því að senda tölvupóst á hopsjosund@gmail.com eða skrá sig á skráningarblað í afgreiðslu Ylstrandarinnar í Nauthólsvík. Það sem þarf að tilgreina tölvupóstinum er nafn, kennitala, netfang, aldur og hvort farið verður báðar leiðir eða ekki. Opnað verður fyrir skráningu miðvikudaginn 12. ágúst. Tilkynning og nánari upplýsingar um sundið verður birt seinna í dag eða morgun.

Skipuleggendur vilja þakka sjósundgörpunum fyrir framúrskarandi þáttökuna, Lyfju og síðast ekki síst ÍTR Siglunesi fyrir frábæran undirbúning á braut og bátafylgd.

mánudagur, 10. ágúst 2009

Íslandsmet í Lyfju-sjóhópsundi !



146 manns synntu yfir til Kópavogs og flestir til baka. Meira um þetta á morgun.

Syndum saman í dag til kópavogs



Minnum á að Lyfju hópsund til Kópavogs kl 18:00 í dag. Skráning niðri í Nauthólsvík.

sunnudagur, 9. ágúst 2009

Brotið blað í Íslandsögunni !

Í gær var brotið blað í íslandsögunni þegar þrír þreyttu Drangeyjarsund og einn Grettissund samtímis. Sjósundkapparnir Heimir Örn Sveinsson, Þórdís Hrönn Pálsdóttir, Þorgeir Sigurðsson og Skagfirðingurinn Heiða Björk Jóhannsdóttir.

Ljóst er að þetta var mikið afrek hjá þeim öllum og mörg Íslandsmet slegin þetta kvöld. Í fyrsta lagi voru þetta fyrstu konurnar til að klára Drangeyjarsund, í öðru lagi er Heiða yngsta konan(Axel Kvaran var 18 ára þegar hann synti Drangeyjarsund) og sú eina til að synda baksund alla leið, í þriðja lagi er Þorgeir sá elsti og einn af fáum án þess að fá nokkra næringu á leiðinni og að lokum var Heimir sá fljótasti til að synda Grettisundið til þessa en hann synti á tímanum 1 klukkustund og 36 mínútum og bætti metið um rúmar 30 mín. Heimir á einnig metið í Viðeyjarsundi 4,6 km sem hann sló nýlega (1:01,57).

Þorgeir synti á tímanum 2,26 klst en það er besti tíminn þeirra sem hafa synt milli eyju og lands og ekki verið í neon-freon galla. Heiða Björk synti á tímanum 2,30 klst. Síðust í land var Þórdís Hrönn sem er núverandi Íslandsmeistari í 4km sjósundi var önnur konan til þess að synda þessa vegalengd og var 4 mínútum á eftir Heiðu.

Heimir hóf sundið frá uppgönguvíkinni í Drangey en hin þrjú byrjuðu frá sandfjörunni sunnan megin í eyjunni. Heimir synti því um 800 metrum lengra en lengd sundsins var 7,2 km (GPS mæling). Meðalhraði Heimis var 4,5 km/klst, en tölur um vegalengd vantar fyrir hina aðilana.

Heimir Örn var ósmurður í neon frean þríþrautargalla, en Þórdís Hrönn, Þorgeir og Heiða Björk voru í sundkeppnisgöllum (no neon frean) ásamt því að vera smurð með hitaeinangrandi smyrsli (Lanólin blanda). Þau voru með teipaða saman fingur til að koma í veg fyrir að missa gripið þegar kólnun byrjar að gera vart við sig.

Aðstæður voru eins og best verður á kosið, spegilsléttur sjór og 14 stiga hiti. Sjávarhiti var um 10-11° (óstaðfest).

Von er á myndum og fleiri upplýsingum um þessi stórmerkilegu sund.

Einnig hægt að sjá á http://www.feykir.is/

þriðjudagur, 4. ágúst 2009

Syndum saman til Kópavogs


Hefur ykkur dreymt um að synda til Kópavogs og kannski til baka aftur ?

Sá draumur getur orðið að veruleika mánudaginn 10. ágúst kl. 18:00 en þá ætlar ÍTR Siglunes í samvinnu við Lyfju að halda hópskemmtisund yfir til Kópavogs og fyrir þá allra hörðustu, til baka aftur. Sundleiðin er um 500m, 1000m báðar leiðir.

Fyllsta öryggis verður gætt þar sem 3 bátar frá Siglunesi munu fylgja sundmönnum eftir. Það skal ítrekað að keppendur bera ábyrgð á eigin þátttöku.

Fyrir sundið verða afhendar glænýjar sundhettur frá Lyfju og allir fá viðurkenningarskjal sundinu til staðfestingar.

Ef þátttaka verður góð þá er möguleiki á að slá Íslandsmet í hópsundi í sjó.
Hægt er að skrá sig í niðri í móttöku Ylstrandarinnar í Nauthólsvík.

Nokkur góð ráð fyrir sundið:
· Gott er að borða vel og drekka sterkan íþróttadrykk (sérblandaður) 2 til 3 tímum fyrir sund. Kemur í veg fyrir kólnun.
· Þátttakendur eru hvattir til að synda alltaf minnst tveir saman (það verða nógu margir þátttakendur til að synda með). Ennfremur ættu sundmenn að tala reglulega saman á leiðinni
Að gefnu tilefni þá er verið skipuleggja hópsund frá Skarfakletti til Viðeyjar og grill á eftir þann 19. ágúst. Það verður auglýst síðar.

föstudagur, 24. júlí 2009

Íslandsmótið í Helgarsportinu


Í dag var Íslandsmótinu okkar, þann 15. júlí, gerð góð skil á RUV í helgarsportinu . Þátturinn verður endurtekinn á morgun kl 12:00. Hægt að skoða upptöku hér

Dáni synti úr Bjarnaey og til Vestmannaeyja


Fréttir voru að berast af selinum Hálfdáni Örnólfssyni betur þekktur sem Dáni hafi synt úr Bjarnarey og inn að skansa, þar sem nýja hraunið endar í innsiglingunni í Vestmannaeyjum. Leiðin er um 3 km og Hálfdán lennti í miklu straumum þegar hann nálgaðist innsiglinguna og óstaðfestar heimildir segja að hann hafi verið 90 mín í sjónum !
Unnið er í því að fá myndir og nánari upplýsingar.

mánudagur, 20. júlí 2009

Hraðamet í Viðeyjarsundi bætt um 6 mín !

Sundleið Heimis. Ýtið á til að stækka

Í dag (20.7.2009) þreytti sjósundgarpurinn Heimir Örn Sveinsson Viðeyjarsund en sundleiðin er frá Viðeyjarbryggju inn í Reykjavíkurhöfn að flotbryggjunni við gamla slippinn. Þetta er leiðin sem Eyjólfur sundkappi og fleiri sundkappar syntu hér forðum og telst vera formlegt Viðeyjarsund. Í beinni línu er sjóleiðinni 4300m en Heimir synti 4610m

Heimir og Ísleifur spá í sjóinn
Þrátt fyrir talsverða norðan hliðaröldu meiri hluta leiðarinnar gerði hann sér lítið fyrir og synti leiðina á 1:01,57. Er þetta lang besti tíminn í sögu Viðeyjarsunds. Í fyrra synti Heimir Viðeyjarsund á 1:08,50 og var þá vafamál hvort það væri hraðamet. Heimir tók allan vafann af því og bætti fyrra met um 6 mín þrátt fyrir verri aðstæður en í fyrra.
sirka 200m frá Viðeyjarbryggju
Hlýtt var í veðri þegar Heimir lagði af stað kl 16:45. 18° og talsvert búið að lægja vind síðan fyrr um daginn, en vindur var 3-4 ms, NA. Heimir hafði vonast til að fá austan átt eins spáð var en það gekk ekki eftir.

Barist við hliðarölduna
Sjórinn var tilltölu lygn fram að Skarfaskeri. Þegar út að Laugarnesi var komið breyttist vindurinn meira í hreina norðan átt og jókst í 5-6 ms Hann fékk því talsverða hliðaröldu (sjá myndir) sem gerði það að verkum að hann rak í átt að landi og þurfti því að leiðrétta stefnum nokkrum sinnum. Heimir var reynslunni ríkari eftir fyrri sund og æfingar sumarsins og tókst á við hliðarölduna með því að fara fyrr með hendur undir vatnsyfirborðið í skriðsundinu og ná þannig að knýgja sig áfram með góðu undirtaki.
Rót við Hafnarminnið
Við tónlistarhúsið


Þegar nær dró höfninni varð sjórinn mjög órólegur vegna endurkast frá varnagarði. Sjórinn batnaði lítillega þegar inn í höfnina var komið og Heimir gat beitt sér betur og kláraði sundi með góðum endarspretti.

Seinustu tökin

Aðstoðarmenn Heimis í dag voru þau Birna Jóhanna Ólafsdóttir, Björn Ásgeir Guðmundsson og faðir Heimis, Sveinn Kjartan Baldursson. Skipstjórinn á bátnum, Ísleifur Friðriksson stjórnaði förinni eins og herforingi. Heimir vill þakka honum og aðstoðarmönnum fyrir frábæra fylgd.

Sveinn,Heimir,Ísleifur,Birna og Björn

Það er nokkuð ljóst að ef Heimir fær ákjósanlegar aðstæður þá á hann auðvelt með að verða fyrstur manna til að synda leiðina undir 1 klst.
Sjá fleiri myndir hér

Kona fyrst í Hríseyjarsundi

Á laugardaginn (18.07),syntu sex sjósundgarpar 3,2 km leið frá Árskógsandi og til Hríseyjar. Tilefnið var hin árlega Hríseyarhátíð. Benedikt Hjartar Ermarsundkappi ásamt fimm öðrum kláruðu sundið í 11° heitum og lygnum Eyjarfirðinum. Sjósundkonan Þórdís Hrönn Pálsdóttir var fyrst á tímanum 1 klst og 10 mín en hún var um leið fyrst af öllum til að synda frá landi til eyjar, en Viktora Breiðfjarðardrottning fór hina leiðina fyrir nokkrum árum. Til gamans má geta þess að þegar sundmenn voru komnir mark þá þurftu þeir að hlaupa upp í sundlaug til að ljúka tímatöku.

Eftir sundið tóku heimamenn sérlega vel á móti mannskapnum og leystu þau út með verðlaunapeningum og dýrindis mat.
Meira á mbl.is

fimmtudagur, 16. júlí 2009

Vel heppnuðu Íslandsmót SSÍ og Securitas í sjósundi lokið


Í gær lauk fyrsta Íslandmótinu í sjósundi. Mótið heppnaðist einstaklega vel. 65 keppendur stungu sér til sunds. Í karlaflokki var gríðalega hörð barátta um fyrstu sætin, bæði 1 km í 4 km sundinu. Konráð Hrafnkelsson var fyrstu í 1 km á tímanum 13:36 og kvenna var hún Hafdís Erla Hafsteinsdóttir fyrst á tímanum 14:43. Rússinn Vadim Forafonov vann 4 km eftir gríðalega baráttu við Heimi Örn Sveinsson. lengst af var Rússinn 50-70m á undan en Heimir náði að saxa á forskotið það voru ekki nema sirka 15 metrar á milli þeirra í lokinn. Sjósundgarpurinn Þórdís Hrönn Pálsdóttir var með afgerandi forystu kvenna flokki og endaði á tímanum 1:24,08.
Úrslitinn má sjá á síðu Sundsambandsins

Á síðu Jóns Svavarssonar ljósmyndara má sjá fullt af frábærum myndum.

Von er á ítarlegri umfjöllun í helgarsportinu kl 18:00 á föstudaginn.

Að lokum viljum við sem tóku þátt undirbúningi mótsins þakka Securitas og ITR fyrir frábært samstarf.

þriðjudagur, 14. júlí 2009

Undirbúningur gengur vel. Mynd af braut

Undirbúningur fyrir fyrsta Íslandsmótið í Sjósundi hefur gengið vel. Það stefnir í 50 þáttakendur og veðurspáinn er hagstæð. Í gær var brautinn sett niður. Hér fyrir ofan eru fyrstu drög af brautinni (ýtið á til að stækka). Ákveðið var að flytja rásmark nær varnagarði vegna grjóta. Eins og sést á mynd þá myndar brautinn þríhyrning til að koma í veg fyrir árekstra.

Í dag hefur verið talsverð fjölmiðlaumfjöllun:

Morgunútvarp Rás 2. Viðtal við Benedikt Hjartarson Ermarsund kappa

Samfélagið í nærmynd. Viðtal við Steinn og Hrafnkell

Stöð 2 Fréttir. Steinn,Benedikt,Heimir og Birna taka æfingu

Sjáumst öll á morgun.

mánudagur, 13. júlí 2009

Íslandsmótið í Sjósundi. Tímasetning og skráningar

Að gefnu tilefni þá skal ítrekað að mótið á miðvikudaginn er kl 17:00. Hægt verður að skrá sig á morgun og eitthvað fram eftir mótsdegi.

Í dag var brautinn sett niður. Mynd af braut kemur annaðkvöld á vefinn.

laugardagur, 11. júlí 2009

Skráning á Íslandsmótið í Nauthólsvíkinni

Nú er hægt að skrá sig á þáttökublað niðri í Nauthólsvík.

miðvikudagur, 8. júlí 2009

Íslandsmóts Securitas í sjósundi


Miðvikudaginn 15. júlí heldur Sundsamband Íslands Íslandsmót í sjósundi í samvinnu við Securitas.
Keppnin fer fram í Fossvoginum við Nauthólsvík og hefst stundvíslega kl. 17:00.
Í boði verða tvær keppnisvegalengdir: 1km og 4km.

Boðið verður upp á eftirfarandi flokka: karlar og konur, karlar og konur í Neoprene-sundfatnaði.
Veitt verða verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin í hvorum flokk og sá sem sigrar hlýtur nafnbótina Sjósundmeistari Íslands 2009.
Þátttökugjald er kr. 1000 fyrir 1km og kr. 1500 fyrir 4km. Þátttökugjald þarf að greiða á mótsstað a.m.k. einum klukkutíma fyrir keppni.
Hægt er að skrá sig með því að senda póst á sundsamband@sundsamband.is og verður opið fyrir skráningu frá 1.-13. júlí. Þeir sem taka þátt þurfa í skráningarpósti að tilgreina nafn, kennitölu og keppnisvegalengd sem er keppt í. Keppendur eru beðnir um að mæta tímanlega á mótsstað til að ganga frá keppnisgjaldi og fá skráningargögn.
Það skal ítrekað að keppendur bera ábyrgð á eigin þátttöku. Á staðnum verður öryggisbátur og brautargæsla.

Allir iðkendur sjósunds sem og aðrir sundmenn eru hvattir til að mæta og taka þátt.

Sjósundnefnd SSÍ

miðvikudagur, 10. júní 2009

Varið ykkur á bátunum !

Hitastig sjávar hækkar stöðugt og veðrið leikur við okkur þessa dagana. Mánudaginn 8. júní hófst heilmikil bátastarfsemi í siglingaklúbbnum Siglunesi í Nauthólsvík og að því tilefni er rétt að árétta opnunartíman þar. Mánudaga, þriðjudaga og föstudaga kl. 9 - 17, miðvikudaga og fimmtudaga kl. 9 - 19. Mjög varasamt er að vera í sjó þegar bátaumferð er á svæðinu og er mikilvægt að sjósundfólk gefi greinilega til kynna af veru sinni í sjó. Það er hægt með því að kalla, veifa og síðast en ekki síst að vera með áberandi rauða eða appelsínugula sundhettu.

fimmtudagur, 21. maí 2009

Margt að gerast í sumar

Seinustu daga hafa verið mjög góðir fyrir sjósund. Frábært veður og hitastig sjávar eykst stöðugt og gríðaleg ásókn í sjóinn.


Sjósundnefnd SSI er byrjað að skipuleggja fyrsta Íslandsmeistaramótið í sjósundi (Open Water). Líklegast verður keppt í byrjun júlí í Nauthólsvíkinni. Keppt verður í 1km og 5km. Fleiri upplýsingar eru að vænta á næstu vikum.

UMFI verður með sjósund á Landsmóti dagana 9-12. júlí. Sjá meira hér

Eins og fyrri ár þá er stefnt af því að vera með hópsund til Viðeyjar. Jónsmessan gæti komið til greina.
Í byrjun September mun 6 manna boðsundsveit freista þess að synda yfir og til baka aftur í Ermarsundinu. Hér er á ferðinni sama boðsundsveit og fylgdi Benedikti í fyrra en komst ekki á stað vegna veðurs og bilana í bát. Undirbúningur hefur gengið vel, boðsundsmeðlimi í fantaformi og búnir að bíða eftir bráðinni í heilt ár !


Sjáumst í sjónum í sumar :)


föstudagur, 15. maí 2009

Sólin skín í Nauthólsvíkinni

Föstudaginn 15. maí hefst sumaropnun Ylstrandar og verður opnunartími alla daga kl. 11 – 19. Í boði eru búningsklefar, sturtur, heitir pottar, sandleikföng og afnot af gasgrilli án endurgjalds. Einnig er til sölu kaffi, gos, sælgæti, ís, pylsur til að grilla og ýmislegt annað góðgæti. Allir dagar eru sólardagar á Ylströndinni og vonumst við til að sjá sem flesta.

fimmtudagur, 30. apríl 2009

Gríðaleg fjölgun í sjósundi

Við 3 mánaða uppgjör kom í ljós gríðarleg fjölgun gesta á Ylströnd og er "sjósundsvísitölukúrvan" enn á uppleið. Á tímabilinu janúar - apríl 2008 voru gestir Ylstrandar 977 en er á sama tímabili 2009 komin í 5441. Við gleðjumst að sjálfsögðu mikið yfir þeim mikla fjölda sem heimsækir okkur reglulega og vonumst til að sjá fleiri nýja gesti á Ylströndinni í framtíðinni.

sunnudagur, 19. apríl 2009

Fróðleg grein um sjósund á vísindavefnum

Forsvarsmenn síðunar hafa fengið talsvert að fyrirspurnum um sjósund og jákvæð áhrif þess.

Á Vísindavefnum fann ég þessa fróðlegu grein um sjósund http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=50871

föstudagur, 27. mars 2009

Bauja með lúðri

Miðvikudaginn 25. mars var nýrri bauju komið fyrir úti á sjó nokkuð nálægt landi fyrir áhugafólk um sjósund. Baujan er sérstök fyrir þær sakir að á henni er lúður og hvetjum við þá sem eiga leið um baujuna að flauta með lúðrinum. Starfsfólk Ylstrandar vill engu að síður taka það fram að það er ekki hættulaust að fara svo langt frá landi á flóði (á ekki við um fjöru) og mælumst við til þess að aðeins reyndari sundmenn fari út fyrir nýju baujuna.

fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Aukin vetraropnun á Ylströndinni

Vegna aukinnar eftirspurnar og mikillar þátttöku í sjósundi hefur Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur ákveðið að auka vetraropnun á Ylströndinni. Föstudaginn 27. febrúar verður opið kl. 11.00-13.00 og verður sú opnun áfram á föstudögum fram á sumar.
Áfram verður opið á mánudögum kl. 17.00-19.00 og á miðvikudögum kl. 11.00-13.00 og kl. 17.00-19.00.

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Sundföt og smá hugrekki er það sem þarf til að byrja í Sjósundi.

Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í sjósundinu þá mælum við með því að þeir mæti niðri í Nauthólsvík, þjónustuhús Ylstrandar. Þar taka starfsmenn vel á móti fólki og leiðbeinir því. Á veturnar er opið á mánudögum kl 17:00 - 20:00 og miðvikudögum kl 12:00 - 13:00 og 17:00 - 20:00 en sumri alla daga frá kl 11:00 - 19:00.


Mikilvægt er að fara varlega fyrstu ferðirnar. Um vetrartímann er sjórinn frá -1,5° - 4°. Þeir allra hörðustu eru um 4-6 mín út en byrjendur um 30 sek - 1 mín. Á sumrin er hann 8° - 15° og þá er hægt að njóta hans mun lengur.

Mesta hindrunin er að komast yfir áfallið (sjokkið) vegna kuldans þegar farið er fyrst út í. Til að minnka sjokkið er gott að bíða á ströndinni til að kæla sig aðeins niður áður en farið er úti. Sjokkið tekur um 30 sek og eftir það dofnar líkaminn og vellíðunar tilfinningin fer um allan skrokkinn. Síðan er farið upp úr og í heita pottinn. Gott er að bíða 2-3 mín áður en farið er í pottinn. Sumir telja að best sé að sleppa pottinum og láta líkamann hita sig upp.

Um vetrartímann er gott að hafa neonfrean hanska og sokka til að verjast kulda bit í útlimum. Útbúnaður fæst í Sportbúðin (Títan)

Öryggi í sjósundi Ráðleggingar til sjósundfólks

Er sjósund holt ?

fimmtudagur, 12. febrúar 2009

Allt að gerast í vetrarsjósundinu.

Talsverð umfjöllun hefur verið um sjósund þessa dagana.

Á morgun, 13. feb, mun morgunútvarp rásar 2 kl. 7:15 fjalla um sjósund. Einnig var skemmtileg mynd og umfjöllun á forsíðu Fréttablaðsins í morgun (fimmtudaginn 12. febrúar), DV fjallaði um sjósund í gær (miðvikudaginn 11. febrúar). Það er sem sagt allt að gerast :)

Við viljum minna "Sjóljósahátíð" (Sjósund og ljósagleði) í Nauthólsvík föstudaginn 13. febrúar sem Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur og Höfuðborgarstofa ætlar standa fyrir í tilefni Vetrarhátíðar . Opið verður í þjónustuhús Ylstrandar kl. 17 – 20 þar sem gestum gefst tækifæri á að nýta sér búningsaðstöðu, heitan pott og svo mun Höfuðborgarstofa bjóða gestum uppá heitt kaffi.

Benedikt Hjartarson sjósundkappi sem gerði sér lítið fyrir og synti yfir Ermarsund síðastliðið sumar ætlar að leiða hópsund kl. 18:30. Við viljum sérstaklega taka það að fram að sundið er ranglega auglýst í dagskrá Vetrarhátíðar þ.e. auglýst er að sundið fari fram laugardaginn 14. febrúar en rétt er að sundið fari fram föstudaginn 13. febrúar.

Starfsfólk Ylstrandar á von á miklum fjölda gesta og svið byggjum meðal annars á því að gestir í sjósundi miðvikudaginn 11. febrúar voru 153 samkvæmt gestabók Ylstrandar og sjórinn var mældur -1°c á 60 cm dýpi út á voginum og -1,8°c við sjávarmál.

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Sjósund á Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar

Framundan er sjósund á vetrarhátíð Reykjavíkur en það mun fara fram föstudaginn 13. febrúar kl. 18:00. Þema vetrarhátíðar er vatn og ljós sem starfsfólk Ylstrandar ætla að undirbúa. Stefnt er að hafa "glit í myrkri" sem fest verða við sundhettur eða húfur og ætla starfsmenn að vera með bál á tveimur til þremur stöðum þar sem sundið fer fram. Benni Hjartar mun leiða hópin í sjóinn. Aðstaða Ylstrandar verður opin kl. 17 - 19 og verður boðið uppá kaffi í tilefni vetrarhátíðar.

mánudagur, 26. janúar 2009

Birna kosin íþróttarmaður ársins 2008 á Álftanesi

Birna Jóhanna Ólafsdóttir sjósunddrottning Íslands, var kjörin íþróttamaður ársins 2008 á Álftanesi.

Birna varð fjórfaldur Norðurlandameistari í sundi í sínum aldursflokki, 45 -49 ára. Hún setti Íslandsmet í 200 m. bringusundi á Norðurlandamótinu.

Birna er ein allra fremsta sjósundkona Íslands. Hún hefur stundað sjósundið að miklum móð seinustu 4 árin og hefur ávalt verið í framarbroddi þeirra kvenna sem stunda sjósund hér á kalda klakanum. Hún var eina konan í boðsundsveit Íslands sem ætlaði að synda yfir Ermasund, liðið þurfti þó frá að hverfa vegna óveðurs.

Við óskum Birnu hjartanlega til hamingju með kjörið.

mánudagur, 19. janúar 2009

Sjósund á Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar

Fyrirhugað er sjósund á Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar föstudaginn 13. febrúar kl. 18:00. Þema hátíðarinnar er ljós og vatn og því sjálfsagt að vera með sjósund á dagskránni. Starfsfólk Ylstrandar munu dreifa ljósum sem hver og einn getur borið á höfði þegar sundið fer fram. Opið verður í búningsaðstöðu og í heitum pott Ylstrandar á meðan sundinu stendur.

mánudagur, 5. janúar 2009

Opnunartími á nýja árinu

Opið verður í dag mánudag kl. 17 - 19 og á miðvikudag kl. 11 - 13 og 17 - 19. Vetraropnun Ylstrandar mun því haldast óbreytt fram að hefðbundnum sumaropnunartíma sem verður um miðjan maí.