þriðjudagur, 11. ágúst 2009

Íslandsmet í Lyfju hópsjósundi




Í gærkvöldi var sett Íslandsmet í hópsjósundi þegar 146 manns syntu frá Nauthólsvíkinni og yfir Kópavogs og flestir fóru til baka aftur en sundleiðin yfir er um 500 metra (eftir að uppfylling kom Kópavogsmegin þá styttist leiðin um 170m, sjá Google Earth). Lyfja í samstarfi við sjósundnefnd SSÍ og ÍTR héldu utan um sundið. Sundið hófst rétt eftir kl 18:00 eftir að Heimir Örn, aðalskipuleggjari sundsins, fór yfir öryggismálin og fleira. Siglingaklúbburinn Siglunes var með fjóra fylgdarbáta til að tryggja öryggi sundsins en 6 manns þáðu aðstoð þeirra og á leiðinni og létu draga sig upp úr. Einnig voru starfsmenn ÍTR búnir að koma fyrir prömmum á leiðinni svo fólk gæti farið upp á þá ef menn lentu í vandræðum. Elsti sundmaður til að synda sundið var Haukur Bersteinsson, 73 ára. Hann synti báðar leiðir í 14,3° heitum sjónum. Eftir sundið hituðu menn sér í pottinum og það er nokkuð víst að metið í heita pottinu var líka slegið.

Bæði óvanir og vanir sjósundgarpar syntu og þeir vönu hjálpuðu þeim sem voru að stíga sín fyrstu skref. Þar á meðal var hópur úr boðsundsliði sem ætlar að synda yfir Ermarsundið og til baka aftur. Ermarsundgarpinn Benedikt Hjartarson mætti ásamt góðum kjarna en þau hafa verið dugleg að fá fólk til að prófa sjósund. Síðast ekki síst syntu afreksjósungarparnir Þorgeir Sigurðsson og Þórdís Hrönn Pálsdóttir en þau unnu það frækilega afrek að synda Drangeyjarsund seinasta laugardag. Sýnt var frá sundinu í 10 fréttum RUV en þar lýsir Þórdís þrekraunum sínum í Drangeyjarsundinu á skemmtilegan hátt.

Hópsjósundið sprengdi af sér alla strengi og því miður kláruðust sundhetturnar og ekki fengu allir viðurkenningarskjöl. Von er á fleiri sundhettum sem verða staðsettar niðri Nauthólsvík og hægt verður að nálgast viðurkenningarskjölin í Lyfju Lágmúla eftir miðvikudaginn. Allar ábendingar um það sem mátti betur fara eru vel þegnar með því commenta á fréttina hér fyrir neðan.

Stefnt er af því að halda annað sjóhópsund frá Skarfakletti og til Viðeyjar þann 19. ágúst kl 17:15 ef veður leyfir. Hægt verður að skrá sig með því að senda tölvupóst á hopsjosund@gmail.com eða skrá sig á skráningarblað í afgreiðslu Ylstrandarinnar í Nauthólsvík. Það sem þarf að tilgreina tölvupóstinum er nafn, kennitala, netfang, aldur og hvort farið verður báðar leiðir eða ekki. Opnað verður fyrir skráningu miðvikudaginn 12. ágúst. Tilkynning og nánari upplýsingar um sundið verður birt seinna í dag eða morgun.

Skipuleggendur vilja þakka sjósundgörpunum fyrir framúrskarandi þáttökuna, Lyfju og síðast ekki síst ÍTR Siglunesi fyrir frábæran undirbúning á braut og bátafylgd.

2 ummæli:

Árni Björn sagði...

Hversu langt er frá Skarfakletti til Viðeyjar?

Heimir sagði...

Það eru um 900 metrar. Það kemur tilkynning um hópsjóund frá Skarfakletti til Viðeyjar í dag.